30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


2 ummæli:

  1. Kæri Páll !

    Svó að við erum flutt frá Laugarási er ég þér hjartanlega sammála með flest í pistlinum þínum. Fagnar hverslags breyting til hið betra. Í Laugarási er svó margt og mörg tækifæri ....fólk verður bara að oppna augun og hafa vilja. Við Gunnlaugur munum altaf vera Laugarásbúar... endar með lóðir rétt hjá væntanlegum uppbyggingarstað....en sérstaklega vegna alls hið góða fólks og umhverfi sem þar er að finna.
    Með ósk um gleðilegt ár og bjartar framtíð fyrir allt og allar Renata og Gunnlaugur

    SvaraEyða


  2. Góður pistill hjá þér Palli og til hamingju með afmælið.
    Haltu áfram sömu braut.
    Kv.Stóra systir.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...