10 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (3)

Laugarás - ljósmynd Mats Wibe Lund
Þetta er síðasti hluti umfjöllunar minnar um dvalarheimili/hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu. 
Tilefni þessara skrifa minna er sannarlega að stærstu leyti sú brýna þörf sem mér finnst vera orðin á að efla þjónustu við það fólk sem á síðasta tímabili ævi sinnar þarf aukna þjónustu, ekki síst þjónustu sem léttir þeim lífið svo sem kostur er.
Það er ennfremur afar mikilvægt til að geta notið elliáranna í öruggu og traustu umhverfi, að það sé auðvelt fyrir það fólk sem að öldungunum stendur, að kíkja í heimsókn.
Það má  kannski halda því fram, að það sé lítilsvirðing við fólk að það skuli þurfa að flyta í aðrar sýslur þegar þær aðstæður koma upp, sem koma í veg fyrir að það geti búið á heimlum sínum. Ég ætla samt ekki að taka svo djúpt í árinni.

Því er ekki að leyna, að það sem ýtir á mig að fjalla um þessi mál er einnig af persónulegum toga. Ef ég fæ að njóta einhverra elliára að ráði, þá blasir við, að í óbreyttu ástandi muni þeim árum fylgja talsvert öryggisleysi. Ef á annað borð verður um að ræða pláss á heimili af þessu tagi, þá get ég átt von á að verða sendur um langan veg, jafnvel austur á Kirkjubæjarklaustur (sannarlega hef ég ekkert á móti þeim fagra stað). Slík staða hugnast mér ekki og ég held að sú staða hugnist fáum.

Faðir minn dvelur í góðu yfirlæti á dvalar- hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Við getum þakkað fyrir að hann er þó ekki lengra í burtu. Það eru 50 kílómetrar frá Laugarási að Hellu, en frá Laugarvatni eru það 25 km til viðbótar.
Ég tala af þessum sökum af nokkurri reynslu um þessi mál.

Það gladdi mig að frétta af því að kvenfélögin í uppsveitunum hafa tekið þetta mál upp á sína arma. Það er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þau beita sér fyrir góðum málum. Frá þessu er greint hér. Þar segir meðal annars:
„Okkur finnst hart að þurfa að flytja aldrað og sjúkt fólk hreppaflutningum svo að það fái þá umönnun sem það þarfnast. Þetta er fólkinu sjálfu erfitt og gerir fjölskyldum þeirra erfiðara fyrir að heimsækja fólkið sitt og leggja sitt af mörkum til umönnunar þess.“ 
Ég get gert þessi orð að mínum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...