Sýnir færslur raðaðar eftir vægi með efnisorðinu Dyngjupúl. Raða eftir dagsetningu Sýna allar færslur
Sýnir færslur raðaðar eftir vægi með efnisorðinu Dyngjupúl. Raða eftir dagsetningu Sýna allar færslur

11 janúar, 2015

Dyngjupúl

Tannstönglavasi
Ég áttaði mig ekki strax á því hvað fD fara að fara þegar hún, upp úr þurru, á laugardagsmorgni, hóf umræðu um að flytja svefnsófann úr dyngju minni niður í kjallara. Þar hlaut að búa annað undir en beinlínis það hún teldi of þröngt hjá mér og þar með skert vinnuumhverfi og síðri aðstaða til að sitja og blogga eða stunda aðra tómstundaiðju.
Það bjó sannarlega annað undir.
Upphafleg hugmynd hennar snérist um það, að í stað sófans, sem færi niður, myndi hún flytjast úr vinnustofunni sinni í kjallaranum og setjast að í minni dyngju og myndi þar með gera hana að sinni.
Ég neita því ekki, að þessari hugmynd tók ég fremur fálega, eins og reyndar hugmyndinni um að flytja sófann yfirleitt. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir það að vera sífellt að breyta umhverfi mínu; finnst það virka bara ágætlega. Þar fyrir utan kalla breytingar yfirleitt á aðkomu mína með einhverju tilteknu vinnuframlagi á sviðum sem ég vil sem minnst koma nálægt, einfaldlega vegna þess að það felur í sér erfiðleikastig sem mér hugnast ekki eða er, að mínum mati afar óskemmtilegt og tilgangslaust.

Ég vissi hinsvegar strax og umræðan hófst, hverjar lyktirnar yrðu. Ég hafði þó mitt fram að því leyti, að fD myndi ekki leggja mína aðstöðu undir sig, heldur tæki hún yfir annað herbergi á efri hæðinni, sem hefur haft takmarkað hlutverk siðustu allmörg árin.

Niðurstaðan lá fyrir, og ég var, áður en ég vissi af kominn í hlutverk sem ég hafði ekki séð fyrir þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og sá fyrir mér rólegheita dag. Það þurfti að rífa í sundur sófa og burðast með hann í frumeindum niður í kjallara, þar sem hann mun fá, þegar loksins gefst færi á að reyna að koma honum saman aftur, hlutverk í nýrri svefnaðstöðu fyrir börn og barnabörn í heimsókn, í verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD.

Úr verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD kom ég síðan að flutningi vinnuborðs upp á efri hæð inn í verðandi vinnuaðstöðu hennar og flutningi annars vinnuborðs, sem ég hafði sett upp í verðandi fyrrverandi vinnuaðstöðu fD, þegar ég útbjó mér vinnuaðstöðu þar fyrir ævalöngu. Það vinnuborð (níðþungt) þurfti að skrúfa niður, enda veggfast, og burðast með upp í núverandi vinnuaðstöðu mína, þar sem niður þurfti að taka verðandi fyrrverandi vinnuborð mitt, sem eftir þá aðgerð varð borð án hlutverks (þó eg eigi ekki von á að svo verði lengi). Borðið þunga þurfti ég síðan að setja upp í vinnuaðstöðu minni í stað þess sem tekið hafði verið niður, eftir að ég hafði þurft að aftengja allan tölvubúnað, án þess að vita hvernig ég færi að því að tengja hann allan aftur, sem tókst á endanum undir Spykids II á RUV.

Nú situr fD í nýju vinnuherbergi, sem enn ber keim að fyrrverandi íbúa, sem er löngu fluttur að heiman (glitstjörnur límdar á veggi og loft). Þangað er hún komin með hljómtæki og spilar aríur og dúetta, mundar pensla og heldur því fram að hún þurfi betri lýsingu.

Ég er, þegar upp er staðið ekki ósáttur með að vera kominn með öflugt borð og ágætt pláss, en sannarlega hefði ég viljað vera án allrar þeirrar fyrirhafna sem breytingarnar kölluðu á.

Ég samgleðst auðvitað fD með að þurfa ekki lengur að brölta niður snarbrattan stigann í hvert sinn sem hún fær góða hugmynd.  Nú erum við að komast á þann aldur að við göngum helst ekki niður hann nema kveikja stigaljósið og styðja okkur við handriðið ;).


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...