09 desember, 2011

Sala á landi


Áfram held ég í tilefni heilsíðuumfjöllunar í Sunnlenska fréttablaðinu í gær af umræðum um mögulega sölu jarðarinnar Laugaráss. Þessi jörð er í Bláskógabyggð, áður Biskupstungum, en er í eigu hreppa í uppsveitum Árnessyslu. Það er dálítið sérkennilegt að nokkrir hreppar eigi saman jörð sem er innan eins þeirra, en það á sínar, sögulegu skýringar, sem ég tel ekki ástæðu til að ég sé að fjalla um hér og nú.

Það er talað um að selja Laugarás og þar með þau lönd sem íbúar þar leigja af sveitarfélaginu Bláskógabyggð. Það væri nú harla kaldranalegt að auglýsa jörðina Laugarás til sölu á almennum markaði, bara si svona. Auðvitað gæti ýmislegt gott hlotist af því, en það gæti líka farið á annan veg.
Það er talað um að Bláskógabyggð, sem situr uppi með þessa jörð innan sinna vébanda, kaupi jörðina af hinum hreppunum. Það væri auðvitað bara ágætis lausn fyrir íbúa Laugaráss, en mér finnst að samhliða slíkum gerningi þyrfti að liggja fyrir, að sveitafélögin á svæðinu hafi lagt á hilluna, um aldur og ævi, eða í það minnsta til talsvert langrar framtíðar, hugmyndir um að sameinast í eitt sveitarfélag.  Það munaði nú ekki miklu hér um árið að það skref yrði tekið og eftir nokkrar minni sameiningar síðan, án stórslysa, má reikna með að tilhugsunin um eitt sveitarfélag uppsveitanna sé ef til vill ekki jafn fráhrindandi og hún var þá í hugum margra. Enn er verið að flytja verkefni til sveitarfélaga frá ríkinu og því eykst enn þörfin á að þau séu í stakk búin til að takast á við þau.
Nú ættum við að spyrja hverju við töpum á því að sameinast, frekar en spyrja hvað við græðum. Ég sé ekki að við myndum tapa neinu, við myndum hinsvegar, líklega græða slatta.

Sem sagt: ef ekki er búið að útiloka sameiningu þessara sveitarfélaga á næstu árum, þá er auðvitað ekki ástæða til að orða það að Bláskógabyggð kaupi. Sambærilegar aðstæður því gætu verið t.d. svona:
Hjón ákveða að skilja. Þau eiga 50.000.000 króna einbýlishús. Það þeirra sem býr áfram í húsinu borgar hinu 25.000.000 og eignast allt húsið. Þau fyrrverandi hjónakorn komast síðan að því eftir einhvern tíma, að skilnaðurinn hafi verið mistök; þau elski hvort annað ofurheitt eftir allt saman. Það sem flutti út og fékk 25.000.000 frá því sem eftir var, flytur aftur inn - búið að eyða peningnum í samfélagsleg verkefni, en það þeirra sem keypi hitt út hefur lilfað við nokkuð þröngan kost síðan, en búið að eignast fasteign, en þar með fest mikið fé.  Hin  siðferðilega spurning væri: á það sem út flutti, og fékk 25.000.000, að greiða þá upphæð aftur þegar það flytur inn á ný?

------

Laugarásland er ekki að öllu leyti í eigu uppsveitahreppanna. Sláturhúslóðin er eignarland. Væri það kannski inni í myndinni að bjóða íbúum að kaupa leigulönd sín á einhverju viðráðanlegu verði?   
Ef Laugarásland væri óbyggð jörð þá væri sannarlega ekki ástæða til að gera mál úr því þó það væri boðið til sölu á almennum markaði. Hér er ekki um að ræða óbyggða jörð, heldur koma við sögu íbúar, sem settust hér að á tilteknum forsendum. Til þess er skylt að líta, og því má segja að umfjöllun eins og í Sunnlenska fréttablaðinu sé dálítið vafasöm, sem fyrsti pati sem (margir) íbúar í Laugarási fá af þessari umræðu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...