01 maí, 2008

Þjóðfélag á hverfanda hveli (3)

Enn hef ég ákveðið að birta hér óbirta, og reyndar ókláraða grein sem ég lamdi inn í tölvuna fyrir 4 árum, þegar ég var í einhverju svartsýniskasti. Ég var að freista þess að skilgreina hvernig stóð á því að heimurinn var eins og hann var. Ég lauk sem sagt ekki þessari grein - kannski vegna þess að ég komst að því í gegnum pælingarnar, að umræða af þessu tagi getur ekki verið einföld; það eru svo ótalmargir þættir sem orsaka það að hlutirnir eru eins og þeir eru.
Hérna fylgir síðasti hluti umræddrarar greinar. Mér þykir við hæfi að velja 1. maí til þessarar birtingar þar sem það er dagur baráttu hins óskilgreinda verkalýðs fyrir betri kjörum. Á þessum degi fjargviðrast menn oft yfir heimsósómanum og telja fram það sem betur má fara. Þetta er af þeim toga og kallar kannski fram einhver viðbrögð.
Ef ég verð síðar þannig stemmdur að mér finnst ástæða til að halda áfram með umfjöllunina, þá geri ég það, að sjálfsögðu.
Atvinnuþátttaka kvenna
Atvinnuþátttaka kvenna hlýtur að hafa átt þátt í því að möguleikar unglinganna á að fara að vinna strax að loknum grunnskóla, minnkuðu. Á svipuðum tíma fjölgaði framhaldsskólum og þeirri hugsun óx fiskur um hrygg að allir ættu að fá tækifæri til menntunar. Þessi þróun öll saman er auðvitað góðra gjalda verð. Hún hefur hinsvegar haft í för með sér ýmislegt sem huga hefði þurft að í upphafi, svona eftir á að hyggja.

Eitt meginhlutverk konunnar gegnum árhundruðin var að ala önn fyrir börnunum, hvaða skoðanir sem fólk vill síðan hafa á því. Þegar konur fóru síðan í stórauknum mæli að afla sér menntunar og taka þátt í atvinnulífinu var ekki óeðlilegt í ljósi sögunnar, að þær leituðu í menntun og störf sem snúa að uppeldi og umönnun barna. Það voru konur sem tóku að sér umönnun barna þeirra fjölskyldna þar sem báðir foreldrar stunduðu atvinnu utan heimilis. Sókn kvenna hófst fljótlega einnig inn í grunnskólana. Á upphafsárum þessarar þróunar, þegar þessi mikli fjöldi kvenna streymdi út á vinnumarkaðinn, var það áfram svo að karlinn á heimilinu var fyrirvinnan, tekjur konunnar voru ekki endilega grundvallaratriði í afkomu fjölskyldunnar. Þetta gilti ekki síst í þeim tilvikum sem konur urðu kennarar. Eftir því sem konum fjölgaði í kennarastétt versnuðu kjör kennara. Karlarnir urðu að leita á önnur mið og kvenkennarar fylltu grunnskólana. Staðan þar nú er sú, að konur sinna yfirgnæfandi meirihluta þeirra starfa sem þar eru í boði. Það er með öðrum orðum komin upp sú staða, að afar stór hluti þeirra barna, sem farið hafa í gegnum grunnskóla á undanförnum 10-15 árum hefur aldrei haft karlkyns kennara. Í beinu framhaldi af kvennavæðingu grunnskólanna hefur það sama átt sér stað í framhaldsskólum landsins.

Þetta gerist á sama tíma og hjónaskilnuðum hefur farið fjölgandi og við slíkar aðstæður fær móðirin í flestum tilvikum forræðið yfir börnunum. Þetta hefur haft það í för með að umtalsverður hluti drengja hefur aldrei haft venjulega karlkyns fyrirmynd. Þetta gerist á sama tíma og videóvæðingin og upplýsingatæknin ryðja sér til rúms, og það er þá væntanlega þangað sem drengirnir leita sér karlímynda. Efnið sem þeir hafa leitað í er í flestum tilvikum hasarkennt eða íþróttatengt og þar birtast því oftar en ekki ýktar myndir af karlmanninum sem eru ekki raunhæfar sem sannar fyrirmyndir fyrir unga drengi í leit að sjálfum sér. Það sama má reyndar segja um ungar stúlkur. Þeirra upplifun af karlmennskuímyndinni hlýtur í mörgum tilvikum að vera afar fjarskakennd.
Það má fullyrða að þeir tímar sem uppi eru núna einkennist all mikið af kreppu karlmannsins í samfélaginu. Hér fylgja nokkrar mögulegar ástæður þess:

Það má ímynda sér að hið kvenlæga uppeldi í gegnum skólakerfið sé að verða til þess að piltar finna sig ekki innan þess. Í þeim blundar karlmennskan, en þeir eiga í erfiðleikum með að höndla hana í heimi konunnar. Hún brýst því fram í ýmsu formi, oftast fremur neikvæðu í garð náms. Kvenlegar áherslur í skólastarfinu virðast henta stúlkum betur og þær eru í síauknum mæli að blómstra innan þess, sem endurspeglast með skýrum hætti í umtalsverðum meirihluta þeirra í framhalds- og háskólum. Með sama hætti eru skilaboðin til piltanna í skólakerfinu þau að þeir séu til vandræða, sem má vel ímynda sér að hægt sé að rekja til þess að nútímaskólinn henti ekki eðlislægum eiginleikum karla.
Sú mynd sem birtist af karlmanninum í samfélaginu er í auknum mæli sú, að hann undiroki konur, misþyrmi þeim, nauðgi þeim, haldi þeim frá því að fá að njóta sín í mikilvægum stjórnunarstöðum í samfélaginu.

Það má segja að upplifun pilta af hlutverki sínu einkennist af ákveðnum vanmætti, eða uppgjöf gagnvart kvenlegu uppeldi skólakerfisins. Þeir upplifa sig stöðugt meira í vörn gagnvart hinum kvenlegu gildum sem eru allsráðandi í öllu þeirra uppeldi. Þeir upplifa sig æ oftar sem tapara eftir meðferð skólakerfisins.
....... hér var svo komið að ég fann ekki rétta tóninn fyrir framhaldið. Þegar skrifin hófust þá bar greinin vinnuheitið: AUMINGJAVÆÐINGIN, og markmiðið var að fjalla um það að nútímaforeldrar, margir hverjir ganga afar langt í að gera börnin sína að aumingjum: "Æi, greyið þú ert ert svo veik(ur) að þú ættir ekkert að fara í skólann í dag." (þó ekki sé nokkur skapaður hlutur að krakkanum). En greinin leiddist síðan yfir í það sem hér hefur birst í þrem hlutum undir heitinu Þjóðfélag á hverfanda hveli. Umfjöllun um aumingjavæðinguna, sem er vissulega afsprengi breyttra þjóðfélagshátta, bíður enn.

1 ummæli:

  1. Þar fyrir utan, aumingjavæðingin:
    þar sem ég kenni má barn ekki fá verk í eyra án þess að koma með hækjur í skólann og haltra um á þeim dögum saman.
    Höfuðverkur,magaverkur, axlaverkur, augnverkur, illt i fingrunum af því að skrifa einn stuttan stíl.
    Sko hvað er eiginlega orðið af gamla uppeldistækinu. "reyndu að harka af þér. Vertu ekki með þessa sjálfsvorkunn."

    Það er "mulið undir" það viðhorf að hlutirnir eigi að vera skemmtilegir og þægilegir og allt annað sé hálfur annar heimsendir.
    En mér dettur líka stundum í hug, hvernig í veröldinni standi á að krakkar á unglingsaldri koma ítrekað í skólann og "gátu ekki lært heima" af því að þau fóru á Selfoss, af því að frænka mín var í heimsókn,. af því ég var á fótboltaæfingu og af því að ég ... VAR AÐ GEFA HÆNSNUNUM...., FÓR Í BAÐ OG OFREYNDI MIG...
    og jú neim it.
    Og hananú!
    Helga Ág

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...