20 apríl, 2008

Þjóðfélag á hverfanda hveli (1)

Í andleysi mínu á þessum sunnudegi kýs ég að varpa út í gegnum þennan fjölmiðil fyrsta hluta pælinga minna frá því árið 2004, og sem ég vék lítillega að í umfjöllun um veikindamál: 'Hvenær er maður veikur...?' hér fyrir neðan. Ef einhver nennir að lesa þetta þá verður hann eflaust margs fróðari, ef til vill jafnvel ósammála, en í slíkum tilvikum getur hann fært fram gagnrök í athugasemdum sínum við skrifin.
Sem sagt, njótið, eða farið á aðra síðu.
Það er auðvitað rétt að svo lengi sem elstu menn muna, að minnsta kosti frá því að hugtakið unglingur varð til, hefur verið litið svo á að þessi hópur væri fremur til vandræða en hitt. Áður en nauðsynlegt þótti að skilgreina fólk á aldrinum þrettán ára til tvítugs sem unglinga var það barn fram að fermingu og var þá tekið í fullorðinna manna tölu; sérstök skilgreining á þessum umrædda aldurshópi var ekki nauðsynleg þar sem strax og hægt var fór þetta ágæta fólk að lifa lífi fullorðinna með þátttöku í atvinnulífinu. Það voru forréttindi tiltölulega fárra að stunda nám umfram fremur skamman tíma í barnaskóla.

Það mun hafa verið í kringum bítlatímann sem hugtakið unglingur varð til. Allt í einu varð til menning sem var verulega frábrugðin því sem hinir fullorðnu áttu að venjast. Tónlist hins nýja tíma og sú múndering og sá hugsunarháttur sem fylgdi í kjölfarið féll ekki að viðteknum skilgreiningum á fólkinu milli tektar og tvítugs. Unglingamenningin varð til og hún festist stöðugt meira í sessi á næstu árum, ekki síst vegna stríðsbrölts Bandaríkjanna í Víet Nam. Hin svokallaða ’68 kynslóð var eitt afsprengi hinnar nýtilkomnu menningar.

Hvort kom á undan, unglingamenningin eða fjölskyldan á hverfanda hveli, skal ekki fullyrt, en það var á svipuðum tíma sem fjölskyldumynstrið fór einnig að taka breytingum. Stórfjölskyldan, með afa og ömmu, pabba og mömmu og börnin öll (fjölmennustu kynslóðir Íslandssögunnar), lét smám saman undan síga. Mamman fór í auknum mæla að leita út af heimilinu til að taka þátt í atvinnulífinu og afinn og amman fóru á elliheimili. Kjarnafjölskyldan varð til með nýjar þarfir sem samfélagið varð að mæta. Hugtökin dagheimili, róluvöllur, fóstra, og lyklabarn urðu til. Fyrirbærið unglingur varð dálítið hornreka í þessu öllu saman.

Það er kannski rétt á þessum punkti að lýsa þeirra skoðun að unglingakynslóðir undanfarinna 10 ára, að minnsta kosti, séu afrakstur afar óheppilegra uppeldisaðstæðna. Þetta unga fólk er engan veginn vont fólk, þvert á móti. Það er oftast fremur saklaust, jákvætt og velviljað svo langt sem það nær.

Það er eðlileg krafa að þess sé freistað að færa rök fyrir svona máflutningi.

Það var eðli stórfjölskyldunnar að sjá um sína. Foreldrarnir, afinn og amman bjuggu í miklu nábýli með börnunum. Börnin voru í náinni snertingu við daglegt líf foreldra sinna í einsleitu samfélagi. Með þessu móti var séð fyrir leið til að flytja áfram mikilvæga þætti í því sem kynslóðirnar á undan höfðu verið að dunda sér við. Bæði var þarna um að ræða að hin nýja kynslóð fékk tilfinningu fyrir því að vera hluti af fjölskyldu sem átti sér sögu og einnig og ekki síður að menning samfélagsins fékk farveg inn í framtíðina. Börnin og unglingarnir fengu tilfinningu fyrir samfélagi sínu og þeim siðum og menningu sem þar giltu.

Eins og getið er um hér að ofan, kom sá tími að samfélagið fór að breytast. Þá rofnaði margt. Þá breyttist margt. Sumt til góðs fyrir samfélagið, annað til ills. Meðal þess sem gott má teljast var að konum fjölgaði á vinnumarkaðnum og fyrirvinnum þar með. Þetta hlýtur þá að hafa bætt fjárhag fjölskyldna umtalsvert. Þá fjölgaði ört í ýmiss konar þjónustustörfum, ekki síst vegna þess að konur leituðu vinnu utan heimilis. Skólakerfið tók að þenjast út þar sem þeirri skoðun óx mjög ásmegin, að allir ættu að eiga rétt á góðri menntun. Tækniþróun tók mikinn kipp á svipuðum tíma og hefur ekki látið neinn bilbug á sér finna. Frelsi í fjölmiðlun kom í kjölfarið, með nýjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, svokallaða ljósvakamiðla. Nýjustu stórbyltingar komu með upplýsinga- og fjarskiptatækninni. Þarna kom margt til á tiltölulega stuttum tíma, sem breytti samfélaginu í grundvallaratriðum. Sjálfsagt má segja, að einangraðir séu allir ofangreindir þættir jákvæðir fyrir þróun samfélagsins. En ef málið væri svo einfalt værum við íbúar fyrirmyndarsamfélagsins, þar sem okkur hefði tekist að finna hina einu sönnu leið til að leysa öll okkar vandamál. Svo einfalt er málið hins vegar ekki.

Á hraðri ferð okkar inn í hið hátæknivædda samfélag upplýsingatækni og fjármagnshyggju höfum við, sem samfélag, skapað aðstæður sem verða að teljast afar varhugaverðar ef litið er til framtíðar. Afar margt í uppeldisaðstæðum íslenskra barna gefur tilefni til að hafa áhyggjur. Hér á eftir eru tilteknar helstu ástæður fyrir þessari skoðun. Auðvitað er hér um að ræða skoðanir sem ekki byggjast á viðunandi fræðilegum grunni, og sem margar hverjar hafa ekki verið rannskaðar.
Kannski kemur framhaldið síðar, þegar svipað stendur á og núna.
Auðugur er andinn ekki' í dag.

2 ummæli:

  1. Basically snýst þetta um aga og ekkert annað!

    - Egill "Hitler" Pálsson

    SvaraEyða
  2. Heimurinn versnandi fer og við tökum þátt í öllu saman og segjum: Ja, þetta er ekki mér að kenna. Ég bað ekkert um þetta.
    Við erum flest sammála um að börn eiga að leika sér við fleira en tölvuleiki en svo heillandi er sá leikheimur að hugur barnsins girnist leiki og þá auðvitað nýja eftir það. Við hlaupumm og kaupum með þá afsökun á vörunum að þau færu hvort sem er eitthvert annað til að leika, þau eru þá alla vega heima og við vitum hvað þau eru að gera!
    Ekki er þetta mér að kenna ég bað ekki um það en er bara "ábyrgðarlaus" þátttakandi í lífinu.

    Pæling..
    Kveðja,
    Aðalheiður

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...