14 desember, 2014

Merki Kvisthyltinga

Merkið á sínum stað á húsinu.
Upp úr 1980 hófst bygging íbúðarhússins í Kvistholti. Það verkefni tók talsverðan tíma, ekki síst vegna tregðu þáverandi byggingafulltrúa Marteins Björnssonar til að samþykkja teikningarnar. Bréfaskipti mín og Marteins frá þeim  tíma eru gullmolar (að mínu mati).

Framkvæmdir hófust og ég fékk Böðvar Inga á Laugarvatni til að slá upp fyrir sökklinum. Síðan tók Steingrímur Vigfússon við og gegndi hlutverki byggingameistara úr því.

Þegar kom að því að slá upp fyrir kjallaranum þótti mér það tilvalin hugmynd að útbúa merki innan á mótin og dundaði mér við það verk í pökkunarskúrnum í Hveratúni. Þarna sagaði ég niður, heflaði og pússaði trélista sem ég negldi síðan innan á mótin áður en steypubílarnir frá Steypustöð Suðurlands renndu í hlað.

Merkið sem síðan hefur blasað við hverjum þeim sem í Kvistholt hefur komið, hefur mér þótt nokkuð vel heppnað, en því var ætlað að tákna einhverskonar gróður, enda vorum við þá búin að rækta rófur, kínakál og eitthvað fleira í einhver ár og það var fyrirhugað byggja gróðurhús, sem síðan reis undir lok 9. áratugarins.  Við hófum einnig strax að landið komst í okkar umsjá að planta trjám vítt og breytt, litlum ræflum sem nú eru orðin að ferlíkjum.

Merking merkisins reyndist vel við hæfi, hér óx allt, gróðurinn og börnin og við sjálf, þó það hefði verið að mestu láréttur vöxtur.

Nú er ég búinn að teikna merkið upp og hyggst nota það sem vörumerki fyrir Kvisthyltinga, hvað sem mönnum getur fundist um það.

Ég hef ekki borið ákvörðun mína um þetta merki undir neinn í fjölskyldunni, þannig að það ágæta fólk verður bara að kyngja því, en hefur frelsi til að nota það að vild í því góða sem það tekur sér fyrir hendur.
Þetta á nefnilega að vera nokkurskonar gæðastimpill.

Ég geri mér grein fyrir að það felst talsverður hroki í því að ein fjölskylda eigi sérstakt merki, en læt mér það auðvitað í léttu rúmi liggja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...