09 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (3)

......framhald
Tónleikasvæðið
Þegar hér var komið, var einstakri upplifun tónleikanna lokið og þá var ekkert annað en að drífa sig í VIP-mótttökuna, en þar áttum við fD að hafa verið skráð á gestalista.


8. Því héldum við í átt að VIP tjaldinu, sem áður er nefnt og fundum þar í grennd hlið inn á svæði listamannanna. Þar stóðu beljakar og sú til þess að enginn óviðkomandi kæmist inn. Af fyrri reynslu reyndi ég ekki einusinni að halda því fram við þá að við værum á VIP lista. Við ákváðum bara að bíða þarna fyrir utan og sjá hvað það hefði í för með sér. Innan einhverra mínútna birtist dívan Lucia Aliberti, umkringd lífvörðum. Gekk út um hliðið og í átt að sölutjaldi sem þarna var og hóf að árita geisladiska.
Egill Árni, Lucia Aliberti og hljómsveitarstjórinn Hendrik Vestmann
      Skömmu síðar sáum við tenórinn inn um hliðið og í kjölfar ábendinga frá honum breyttist allt viðmót í hliðinu, mennu bukkuðu sig og buðu okkur velkomin inn fyrir, þar sem við síðan fengum að svala þorsta okkar um stund ásamt því að hitta skipuleggjanda tónleikanna, sem hafði það á orði að þetta yrði hreint ekki í síðasta sinn sem hann óskaði eftir samvinnu við soninn. Hér leið nokkur stund, áður er tilkynnt var að nú skyldi gengið til VIP tjaldsins. Sem var gert. Í þeirri prósessíu voru, að sjálfsögðu einsöngvararnir og hljómsveitarstjórinn, ásamt skipuleggjandanum. Við fylgdum þarna með, talsvert útblásin, og töldum okkur heldur betur vera þarna í góðum hópi.
Þegar inn í tjaldið var komið flutti skipuleggjandinn ávarp þar sem hann þakkaði þátttakendum og þeim vara fagnað eins og vera bar.

9. Þá lá leið hópsins (bara hluta hans, reyndar. Tenórinn benti okkur að fylgja með) inn í nokkurskonar VIPVIP hluta VIP tjaldsins. Þar inni var allt skjannahvítt, veggir, stólar, borð og gólf. Þar inni stóðu krásir gestum til boða og fólk tilbúið að hella hverju sem hugurinn girntist í glös gestanna. Þarna hefði maður getað, við eðlilegar aðstæður, belgt sig út, en einhvernveginn var maður hálf lystarlaus eftir adrenalínflæði undanfarinna klukkustunda. Þarna var háborð sem var merkt: ARTISTS, og þar var okkur ætlað, sökum tengsla, að sitja og njóta veitinga.
Myndin sem olli uppnáminu
Allt fallið í ljúfa löð

10. Á einum tímapunkti ákvað ég að taka mynd af tenórnum í þessum hvíta heimi, en það fór harla illa í sópransöngkonuna. Hún benti mér á það, með allmiklum þjósti, að myndatökur væru ekki leyfðar. Þarna var þó ljósmyndari í tjaldinu, sem myndaði í gríð og erg. Tenórinn útskýrði þá fyrir henni, hvers lags var, með þeim afleiðingum að hún skipti algerlega um kúrs og vildi endilega leyfa mér að taka þarna myndir af henni með tenórnum. Þarna skellti hún sér í hlutverk fyrirsætunnar og sýndi samsöngvara sínum ótvíræð blíðuhót.
----------------------------
Viðdvölin í VIP tjaldinu var skemmtileg viðbót við tónleikana, en þar kom að haldið skyldi heim á leið. Ég gerði eins og í bíómyndunum, veifaði hendi, og umsvifalaust renndi leigubifreið að gangstéttarbrúninni. Því næst var ekið til Kurfurstenstrasse í þrumum og eldingum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...